Fréttir

Jólaopnun - Sparistellið í jólabúning

Jólaopnun Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla hefst laugardaginn 26. nóvember. Jólasýningin: Sparistellið í jólabúning mun opna. Jafnframt verður hægt að mála sinn eigin jólabolla. Greta María gullsmiður verður á staðnum með úrval af fallegum skartgripum. Jóladrykkur og 20% afsláttur á völdum vörum í Krambúðinni. Um kvöldið eða kl. 21:00 mun svo hljómsveitin Bergmál halda tónleikana Dónajól.

Ný sýning í Norska húsinu - „Heimili á hafinu …“ G. Sch. / Landfestar

Kynningin sem nú stendur yfir í Norska húsinu í Stykkishólmi fjallar um hús í Flatey, tvö hús: hús Guðmundar Scheving og hús Herdísar Guðmundsdóttur Scheving og Brynjólfs Bogasonar Benediktsen. Húsin eru friðuð, og eru minni um menningar/endurreisn sem átti sér stað í Flatey um miðja 19. öld; þar nefndur presturinn Ólafur Sívertsen, en þeir voru fleiri sem þar voru. Brynjólfur Benediktsen lést 1870 og Herdís hvarf úr eyjunni ásamt dótturinni Ingileifi. Áratugirnir 1840 til um 1870 voru einnig baráttuár Íslendinga fyrir afnámi danskra verslunarhafta, og fyrir leyfi til heimastjórnar, fyrir stjórnarskrá þess tíma. Þeir sem getið er um voru staðfastir fylgjendur Jóns Sigurðssonar, þjóðflokksmenn og Þjóðfundarmenn 1851.

Skotthúfan 2021

Laugardaginn 3. júlí n.k. fer fram þjóðbúningahátíðin Skotthúfan í Stykkishólmi. Hátíðin hefur fest sig í sessi og setur hún bæði fagran brag á annars fallegan bæ þegar áhugafólk af öllu landinu heimsækir Stykkishólm í sínu fínasta pússi. Byggðasafn Snæfellinga- og Hnappdæla hefur veg og vanda að hátíðinni og hefur fóstrað hana frá fyrstu tíð í Norska húsinu, elsta tvílyfta timburhúsi á Íslandi. Fyrsti þjóðbúningadagurinn í Norska húsinu var haldinn 2005 og nafnið Skotthúfan tekið upp árið 2014. Síðan hefur verið bryddað upp á fyrirlestrum, tónleikum, smiðjum og balli í dagskránni og hefur við það myndast skemmtileg stemning meðal gesta. Mikill áhugi er á þjóðbúningum og eru námskeið í þjóðbúningasaumi haldin um allt land með jöfnu millibili. Hátíð eins og Skotthúfan er því kærkomið tækifæri til að viðra búningana og fyrir áhugasama að kynna sér enn frekar þennan menningararf sem íslenskir þjóðbúningar eru.

Sumaropnun Norska hússins

Þann 1. apríl síðastliðinn opnuðu tvær sýningar í Norska hússinu- BSH. Vegna aðstæðna var ekki hægt að halda formlega opnun og verður hún því 3. júní næstkomandi. Þetta eru ljóðasýningin Hjartagull eftir Kristínu Lilju Gunnsteinsdóttur og ljósmyndasýningin Silfurbúrið eftir Hjördísi Eyþórsdóttur. Hjördís Eyþórsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1991. Hjördís hóf að taka ljósmyndir árið 2016 og hefur lengi haft mikinn áhuga á ljósmyndum. Á sýningunni sýnir hún brot úr nýju langtímaverki sínu. Silfurbúrið afhjúpar landsbyggðardrauminn og sýnir draumkenndan raunveruleika ungrar konu sem býr ein í smábæ á Vesturlandi. Kristín Lilja Gunnsteinsdóttir var fædd árið 1990. Á sýningunni gefur að líta ljóð og teikningar eftir hana frá því hún var barn í Stykkishólmi. En það kom snemma í ljós hversu listræn Kristín var og í henni bjó ólgandi og skapandi kraftur.

Hjartagull og Silfurbúrið - sýning í Norska húsinu

Fimmtudaginn 1. apríl kl. 14:00 opna tvær sýningar í Norska húsinu. Ljóðasýningin Hjartagull eftir Kristínu Lilju Gunnsteinsdóttur og ljósmyndasýningin Silfurbúrið eftir Hjördísi Eyþórsdóttur. Hjördís Eyþórsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1991. Hjördís hóf að taka ljósmyndir árið 2016 og hefur lengi haft mikinn áhuga á ljósmyndum. Á sýningunni sýnir hún brot úr nýju langtímaverki sínu. Silfurbúrið afhjúpar landsbyggðardrauminn og sýnir draumkenndan raunveruleika ungrar konu sem býr ein í smábæ á Vesturlandi. Kristín Lilja Gunnsteinsdóttir var fædd árið 1990. Á sýningunni gefur að líta ljóð og teikningar eftir hana frá því hún var barn í Stykkishólmi. En það kom snemma í ljós hversu listræn Kristín var og í henni bjó ólgandi og skapandi kraftur. Sýningin er styrkt af Uppbyggingasjóði Vesturlands og Lista- og menningarsjóði Stykishólmsbæjar.

Undirbúningur fyrir nýja grunnsýningu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla

Í liðinni viku hófst endurskoðun á grunnsýningu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla, í Norska húsinu í Stykkishólmi. Í nýrri sýningu verður lögð aukin áhersla á Snæfellsnesið allt og að sýningin verði í takt við nýjustu strauma og stefnur í safnaheiminum. Að skipta um sýningu í byggðasafni er ekki einfalt verkefni. Hvaða sögu(r) viljum við segja? Hver er kjarninn í sögu, menningu og mannlífi Snæfellsness, frá landnámi til nútíðar og hvernig viljum við miðla því „DNA“ til heimafólks og gesta? Og í söfnum nútímans er horft til framtíðar, svo það á líka við að spyrja hvert sé framlag Snæfellsness og Snæfellinga til komandi kynslóða.