Bakland hverrar manneskju er mikilvægt. Það hefur áhrif á þroska og persónusköpun hvers og eins.
Bakland, í merkingunni fólkið sem stendur hverjum og einum næst og bakland í merkingunni heimahagar.
Leiðarljós sýningarinnar um Snæfellsnes og ungt fólk frá 1900 fram til samtímans er að líta í spegil fortíðar og nútíðar, í þeim tilgangi að draga upp mynd af ytri aðstæðum, samfélagi og því sem hefur mótandi áhrif á unga fólkið sjálft og staðartengsl þess, þá og nú.
Það telst til lífsviðburða að fermast, komast í fullorðinna manna tölu! Oft er litið þannig á að ferming sé þröskuldurinn að fullorðinsárum, þar sem barnæskan er kvödd og alvaran tekur við. Árin sem á eftir fylgja eru mikil mótunarár, þau eru flókin og full af áskorunum, sem marka framtíðina og sá tími tími í lífi Snæfellinga sem þessi sýning tekur mið af.
Snæfellsnes skartar náttúrufyrirbrigðum nær og fjær og er stundum sagt vera Ísland í hnotskurn. Snarbrött fjöll, fagur Jökullinn og Breiðafjörðurinn með eyjarnar óteljandi eru einkennandi fyrir svæðið og sýnilegt víða að. Sögur eru við hvert fótmál allt aftur til landnáms fram til dagsins í dag. Saga samfélagsins á Snæfellsnesi og í Breiðafjarðareyjunum frá 1900 tekur stórstígum breytingum þegar líður á og mótast hún af tækniframförum, búferlaflutningum og víðtækari samskiptum fólks yfir stækkandi svæði. Einangrun rofnar og heimurinn er í hendinni.
Byggðasafnið hlaut öndvegisstyrk Safnaráðs árið 2020 til að ráðast í gerð nýrrar grunnsýningar og var víðtækt samráð haft um sýninguna þar sem íbúar Snæfellsness tóku virkan þátt í samtalinu. Niðurstaða stýrihóps sem hélt utan um undirbúningsferilinn var að ný sýning myndi fjalla um ungt fólk á Snæfellsnesi á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öldinni. Anna Melsteð þjóðfræðingur í Stykkishólmi var ráðin sem sýningarstjóri og Finnur Arnar Arnarsson sýningarhönnuður til þess að hanna umgjörð sýningarinnar. Sýningin dregur fram sjónarhorn ungs fólks á umhverfi sitt og tengingu þess við átthagana en saga Snæfellsness blandast þar inn í enda ótalmargir utanaðkomandi þættir í sögunni sem höfðu afgerandi áhrif á líf ungmenna á tímabilinu 1900 til samtímans.
Hvað er það sem mótar menningu, staðartengsl og félagsþroska einstaklinga? Getur verið að það séu samskipti milli fólks, tengingar þeirra á tilteknu svæði eða kannski fjarskiptatækni? Samskipti, samgöngur og samfélag voru þættir sem höfðu afgerandi áhrif á líf ungs fólks allan þann tíma sem sýningin endurspeglar. Í því skyni að varpa ljósi á þessa áhrifaþætti er leitað í safnkost Byggðasafnsins og dustað ryk af hluta þeirra 6000 gripa sem safnið varðveitir og tengist umfjöllunarefni sýningarinnar. Má þar finna forvitnilega hluti sem á einhverjum tímapunkti hafa haft áhrif líf ungs fólks.
Auk safngripa Byggðasafnsins eru fjölmargar myndir birtar á sýningunni úr ljósmyndasöfnum á Snæfelssnesi og víðar. Tónlist flutt af Snæfellingum hljómar einnig og sumt af því efni hefur ekki komið fyrir eyru almennings áður.
Í tengslum við sýninguna var gerð viðtalsrannsókn þar sem tekin voru viðtöl við Snæfellinga á ýmsum aldri. Viðtölin urðu grundvöllur að sýningarhandriti sýningarinnar og uppistaðan í hlaðvarpsþáttaröð sem tengist henni. Snæfellingar segja frá árum sínum á Snæfellsnesi á aldrinum 13-23ja ára sem er það aldursskeið í ævi fólks sem sýningin ávarpar. Þau ár í tíma viðmælenda eru skoðuð m.t.t. tíðaranda, staðartengsla viðmælenda, framtíðarsýn og fleira.
Ljósmynd: Bæringsstofa. Á leiðinni á ball.
Ljósmynd: Stykkishólms-Pósturinn, hljómsveitakeppni í Ólafsvík.