Solander 250:Bréf frá Ísland - opnun

Laugardaginn 23. september opnar í Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla sýningin Solander 250:Bréf frá Íslandi.
Sýningin hefur ferðast um landið en hún mun teygja anga sína um tólf listasöfn og sýningarsali um allt land frá haustinu 2022 og enda í Svíþjóð 2024. Sýningin er samstarfsverkefni félagsins Íslensk grafík og sænska sendiráðsins á Íslandi.
Sýningin Solander 250: Bréf frá Íslandi er sett upp til að minnast þess að liðin eru 250 ár frá merkum erlendum vísindaleiðangri til Íslands árið 1772. Með í þeirri för var einn af lærisveinum hins heimsþekkta sænska náttúruvísindamanns Carls von Linné, náttúrufræðingurinn Daniel Solander frá Svíþjóð. Þá skrásetti Solander og safnaði margs konar fróðleik um náttúru Íslands, menningu, siði og klæðaburð þjóðarinnar. Á sýningunni túlka tíu íslenskir listamenn frá félaginu Íslenskri grafík þessa atburði og þær breytingar sem hafa orðið á landi og þjóð síðan.
Samhliða henni má svo sjá sýninguna Paradise Lost - Daniel Solander’s Legacy, sem ætlað er að minnast ferða Solanders til Kyrrahafsins árið 1769. Eru þar sýnd verk tíu listamanna frá Kyrrahafssvæðinu en Solander var í áhöfn HMS Endeavour í fyrstu ferð Evrópumanna til Ástralíu. Mynda sýningarnar tvær þannig einstakt samtal Norðurskautsins og Kyrrahafsins í ljósi ferða Solanders. Sýningarnar eru settar upp í samstarfi við sendiráð Svíþjóðar á Íslandi og félagið Íslenska grafík.
Paradise lost - Daniels Solander’s Legacy hefur áður verið sett upp á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu og Svíðþjóð en að loknum sýningartímanum í Hafnarborg munu sýningarnar ferðast um landið. Umsjón með sýningunni Solander 250: Bréf frá Íslandi fyrir hönd félagsins Íslenskrar grafíkur hafa Anna Snædís Sigmarsdóttir og Elísabet Stefánsdóttir.
Allir hjartanlega velkomnir, léttar veitingar í boði.
Sýningin stendur til 7. október.
Opið alla daga frá kl. 12-16.