Sjónauki og Mundi

Í tilefni af Óskahelgi í Stykkishólmi opna tvær nýjar sýningar í Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla laugardaginn 28. október kl. 14:00.
Anna Sigríður Gunnarsdóttir opnar sýninguna Sjónauki.
Steinnun Gríma opnar sýninguna Mundi.
Anna Sigríður Gunnarsdóttir er fædd í Reykjavík 1960 en hefur verið búsett í Stykkishólmi síðan 1982. Hún lærði mótun í leir og tengd efni í Myndlistaskólanum í Reykjavík.
 

Sjónauki

 
Á hverjum degi verða á vegi okkar hversdagslegir hlutir sem við gefum ekki sérstakan gaum. Við stígum á visnað laufblað án þess að taka eftir litbrigðum þess eða fegurðinni í beru æðakerfi þess. Við sjáum ekki fagurt form fræbelgja blómanna sem við nutum í sumar. Við skerum endana af gulrótunum og hendum afskurðinum án þess að taka eftir því að hver og einn þeirra er einstakur, engir tveir eins. Svona höldum við áfram þar til okkur er hjálpað að koma auga á hið smáa í kringum okkur, fegurð þess og notagildi. Þar til sjón okkar er aukin.
Sjónauki er tæki sem við notum til að auka sjón. Hann gerir okkur kleift að sjá betur og í meiri smáatriðum það sem er í órafjarlægð. Við beinum sjónaukanum að fuglum á flugi, skipum á sjó, fjallstindum, stjörnum og tungli.
Færri vita að sjónauki gerir okkur kleift að sjá betur það sem er nálægt en of smátt til að við getum greint það. Við getum notað hann til að skoða æðakerfi laufblaðsins, fræbelg blómsins, endann á gulrótinni. Sjónauki er smásjá. Það er merkingin sem Jónas Hallgrímsson gaf orðinu þegar hann bjó það til. Það var ekki fyrr en seinna sem sjónauki fékk þá merkingu sem við nú þekkjum. Galdurinn við þetta orð er sá að það felur í sér þessar tvær ólíku merkingar, sjónaukinn gerir okkur kleift að koma auga á það sem við annars gætum ekki séð, hvort heldur er í fjarlægð eða nálægð.
Anna S. Gunnarsdóttir eykur sjón okkar á það smáa, það sem okkur yfirsést í daglegu amstri. Hún fær okkur til að staldra við í hraða samtímans og nota skilningarvitin til að horfa, hlusta, finna og skilja. Það er því viðeigandi að sýning hennar heiti Sjónauki.
Texti: Anna Sigríður Þráinsdóttir
 

Mundi


Steinunn Gríma Kristinsdóttir fór í ferðalag til að fanga ljósmyndirnar í þessari myndaröð. Hún fór norður á Strandir, í Árneshrepp, sem er ein afskekktasta byggð á Íslandi, þar sem hún myndaði líf feðga sem hafa búið þar saman.

Líkt og svo víða í sveitum landsins stendur reksturinn ekki lengur undir sér og þeir þurfa að fella féð og bregða búi. Sonurinn flytur til Reykjavíkur þar sem einhverja vinnu er að hafa en pabbi hans verður eftir og veikist alvarlega skömmu síðar.
Sem bakgrunn að þessari sögu myndar Steinunn Gríma líka líf fólksins í þessari harðbýlu sveit og náttúrulegt umhverfið með sínum tignarlegu fjöllum og endalausri hafsýn. Við skynjum hve erfitt er að þurfa að víkja úr þessari paradís.
Sagan um eyðingu afskekktra byggða er allt of flókin til að hægt sé að gera henni skil í nokkrum ljósmyndum en Steinunn Gríma veitir okkur innsýn í þennan heim og gerir það af þeirri nærgætni og virðingi sem viðfangsefninu ber.
Texti: Jón Proppé