Hræðileg helgi 24. - 25. febrúar

Það verður margt um að vera á safninu í tilefni þess að Hræðileg helgi í Stykkishólmi verður haldin dagana 24. -25. febrúar.

Föstudaginn 24. febrúar verður draugahús á safninu þar sem Dagrún Jónsdóttir þjóðfræðingur mun leiða gesti um draugahúsið og segja frá draugum og þeim ólíku gerðum drauga sem finnast á Íslandi, líkt og uppvakninga, afturgöngur, útburði og fépúka. Hún kennir ýmis praktísk atriði eins og hvernig má þekkja drauga sem fólk mætir á förnum vegi, vekja upp draug og svo losna við drauga sem ásækja mann.

ATH. Kl. 17:00 og 17:30 er draugahús fyrir 20 ára yngri.

Kl. 20:30 er opið fyrir eldri kynslóðina og hleypt inn í þremur hópum.

Kl. 20:30, 21:00 og 21:30.

Laugardaginn kl. 13:00 opnar sýningin Skessur sem éta karla, sem jafnframt er eftir Dagrúnu. Hún hefur undanfarið rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Mannát birtist einkum í íslenskum tröllasögum, þar sem átök kynjanna leika stórt hlutverk. Þar segir oftast frá tröllskessum sem leggja sér karlmenn til munns og velta má fyrir sér hvað sagnirnar geta sagt okkur um samfélagið sem þær tilheyrðu.

Í rannsóknum sínum fléttar Dagrún Ósk saman þjóðsögunum og nýrri hugmyndum um femínisma, niðurstöður sínar setur hún fram á veggspjöldum, í samstarfi við listakonuna Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur sem teiknaði myndir fyrir sýninguna og þá sem hér fylgir.

Í tilefni opnunarinnar kl. 13:00, mun Dagrún koma á staðinn og segja stuttlega frá verkefninu og mannáti í íslenskum þjóðsögum.

Á laugardagskvöld kl. 20:00 mun vera farin draugaganga frá Norska húsinu. Ganga um slóðir sem Hólmarar hræðast. Reimleiki í gamla kirkjugarðinum, álagablettir og fleira.

Dagskrá helgarinnar má nálgast inn á: https://www.visitstykkisholmur.is/is/vidburdastjornun/drauga-og-glpaht