Glerverk með Snæfellsnes í huga

Sýningin Glerverk með Snæfellsnes í huga eftir Hrafnhildi Ágústdóttur (Rabbý) opnar í Norska húsinu - Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla, laugardaginn 8. júlí kl. 14:00.
Á sýningunni eru 36 fuglamyndir, aðallega af farfuglum, sem eru algengir á Snæfellsnesi. Sex myndir eru í hverju setti, lóur, kríur, tjaldar, maríuerlur, hrafnar og sex mismunandi vaðfuglar, spói, hrossagaukur, rauðbrystingur, stelkur, jaðrakan og sandlóa.
Söluverð allra mynda og skála á sýningunni mun renna óskipt í sérstakan sjóð Fuglaverndar.
Rabbý hefur hannað og gert með aðferð Tiffanys nær 80 lampaskerma úr steindu gleri, sem allir eru á vönduðum lampafótum
Á sýningunni má sjá hluta þeira og eru þeir hannaðir með misgamlar íslenskar fyrirmyndir í huga.
Sýningin mun standa frá 8. júlí - 17. september.
----
Hrafnhildur Ágústsdóttir (Rabbý) fæddist í Reykjavík. Frá árinu 2001, hefur hún eytt öllum sumrum að Hnausum á Snæfellsnesi. Á yngri árum sótti hún námskeið við Myndlistarskólann í Reykjavik. Hún útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands 1967 og sérnámi í skurðstofuhjúkrun 1968. Hún starfaði við skurðstofuhjúkrun í nokkur ár, fyrst á Íslandi, og svo um tíma í Bandaríkjunum. Hún nam glerlist á ýmsum stöðum í New York og annars staðar vestan hafs. Á árunum 1981 til 1993 hélt hún einkasýningar í New York og Reykjavik og tók þátt í samsýningum í New York og San Fransisco.
Hún hannaði og gerði úr steindu gleri alla glugga í kirkjuna í
Vík í Mýrdal, en þeir voru vígðir árið 1996 af sóknarprestinum, Haraldi Kristjanssyni, en Herra Sigurbjörn Einarsson, biskup, predikaði. Árið 2003, voru vígðir gluggar úr steindu gleri, sem voru hannaðir og gerðir af Rabbý fyrir nýbyggingu Larchmont Avenue kirkjunnar í New York.
Rabbý hefur hannað og skapað mörg glerverk eftir pöntunum frá fólki í ýmsum ríkjum, einkum lampa og glugga úr steindu gleri, en á síðari árum hefur hún einnig hannað og gert diska og skálar úr bræddu gleri. Hún starfrækti eigið stúdíó, fyrst í Larchmont og síðar í New York borg, uns hún flutti stúdío sitt til Arizona árið 2018.
Eiginmaður hennar er Kristjan Tómas Ragnarsson læknir og Emeritus Prófessor og eiga þau 4 giftar dætur og 12 barnabörn. Þau hjónin bjuggu lengst af í New York, en nú í Arizona á vetrum og Snæfellsnesi á sumrin.
Hrafnhildur og Kristján, eiginmaður hennar, unnu með Landgræðslunni að endurheimt votlendis með því að láta fylla upp í alla skurði á landi þeirra að Hnausum á snæfellsnesi, en sannað er að slíkt auðgi fuglalíf og minnki mengun í lofti.