Andaðu - Ljósmyndasýning eftir Jónu Þorvaldsdóttur

Nú stendur yfir ljósmyndasýning á svarthvítum listljósmyndum Jónu Þorvaldsdóttur, í Norska Húsinu.

Jóna verður á staðnum með listamannaspjall laugardaginn 30.mars frá kl. 16-18. Léttar veitingar í boði.

Með ljósmyndaverkum sínum, sem sveipuð eru dulúð og mýkt, er Jóna að miðla áfram því sem hún skynjar og upplifir hverju sinni. Þau endurspegla ekki endilega raunveruleikann eins og hann kemur okkur fyrir sjónir, heldur eru þau ferðalag inn í hugarheim hennar, inní veröld sem hún ímyndar sér.

Þegar hún er að mynda, leyfir hún innsæinu og umhverfinu að vinna með sér, vinnur út frá því sem gerist. Stundum tekur hún myndir einfaldlega vegna þess að henni líður vel á staðnum eða þegar eitthvað ómeðvitað kallar á hana.

„Myndverkin mín eru mín persónulega upplifun innávið en áhorfandinn má túlka þau á sinn veg“.

Jóna hefur gaman af því að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og velta fyrir sér ýmsum formum og verum sem myndast í náttúrunni sem á einu augnabliki geta breyst og horfið.

Í fljótu bragði virðast myndirnar hennar, margar hverjar, vera eingöngu landslag eða form en þegar betur er að gáð, má sjá ýmsum verum bregða fyrir. Það fer allt eftir hvernig hver og einn sér og upplifir myndefnið.

Handverkið skiptir hana miklu máli. Hún framkallar filmurnar sjálf og nýtur þess að handstækka ljósmyndirnar í rólegheitunum í myrkrarherberginu sínu og vinna þær í höndunum. Hver og ein ljósmynd er einstök þar sem stafræn tækni kemur hvergi nærri.

Jóna lærði ljósmyndun í Varsjá í Póllandi og hefur síðan sótt ýmsar vinnustofur og haldið fjölda sýninga.

 

Sýningin er opin þriðjudaga - laugardaga frá kl. 13.-16.

Nánar: www.jonaphotoart.is og I: jonaphotoart