Starfsemi

Fastar sýningar

Heldra heimili í Stykkishólmi á 19. öld er aðalsýning hússins og var hún opnuð árið 2001. Sýningin er á miðhæðinni og sýnir heimili Árna og fjölskyldu. Byggt er á skriflegum heimildum um Norska húsið svo og öðrum heimildum frá 19. öld. Gripir á sýningunni eru að hluta til úr eigu Árna og fjölskyldu.

Í risi er opin safngeymsla sem sýnir þverskurð af safnkostinum og er munum reglulega skipt út. Geymsla safnsins er utan Norska hússins.

Á jarðhæð Norska hússins eru tveir sýningarsalir þar sem settar eru upp sýningar á sumrin og á aðventu. Þessar sýningar eru 3 – 8 yfir árið. Flestar byggja þær á safnkostinum, en einnig koma inn listsýningar, gjarnan tengdar sögu svæðisins, og fyrir kemur að sýningar eru fengnar að láni. Byggðasafnið starfrækir Krambúð þar sem kennir margra grasa. Auk sýninga hefur safnið kappkostað að bjóða upp á staka viðburði. Frá árinu 2005 hefur t.d. verið haldinn árlegur þjóðbúningadagur. Einnig eru haldnir markaðir í tengslum við atburði í húsinu. 

 Hér til vinstri má finna upplýsingar um þær sýningar sem haldnar hafa verið á jarðhæð safnsins seinustu ár.